Til þeirra er málið varðar
Fréttir

Leppar og lygafléttur

30.3.2017 Fréttir

Ég má til með að tjá mig um skýrsluna um einkavæðingu Búnaðarbankans, þar sem fram kemur að Hauck & Aufhäuser dæmið var allt ein lygaflétta. Rétt eins og í Al-Thani málinu nokkrum árum síðar var hönnuð lygaflétta til að blekkja stjórnvöld, markaðinn og almenning.

Hópur þjóðkunnra tækifærissinna setti saman Svika-hópinn sem átti ekkert erlent fjármagn og var skuldsettur upp að öxlum, notaðist við lánsfé og tók síðan fleiri lán til viðbótar. Allt einkavæðingarferlið breyttist strax og Svika-hópurinn kom að því. Einkavæðing beggja banka fór þá að miðast í öllu við þarfir þessa hóps og óskir, tímasetningar og framkvæmd öll fór eftir duttlungum hans. Ég skrifaði m.a. um þetta í bók minni, Billions to Bust and Back:

Ég hefði átt að snúa baki við öllu saman þegar ég áttaði mig á því hvað var í gangi. Ég hefði átt að segja: „Það er skítalykt af þessu og það er hættulegt.“ Innsæið sagði þetta líka en ég hlustaði ekki af því að ég hélt að ég yrði útmálaður sem misheppnaður og tapsár ef ég færi að halda því fram að samningurinn væri fyrirfram ákveðinn. Þess í stað skrifaði ég bréf til Davíðs forsætisráðherra, Geirs Haarde fjármálaráðherra og einkavæðingarnefndar og mætti í fjölmiðlaviðtöl þar sem ég sagði að einkavæðingarferli beggja bankanna væru ógagnsæ og óskýr. Ég sagði þeim að einkavæðingarreglur í Búlgaríu væru skýrari en þær íslensku. En athugasemdirnar fengu enga athygli. Síðar fyrirskipaði þingið rannsókn en þar var farið á hundavaði yfir hlutina. Eftir hrunið kom í ljós að það sem ég hafði verið að segja átti rétt á sér.

Svika-hópurinn þurfti samt að sýna fram á, að hann styddist við öflugan, erlendan banka, til að eiga von til þess að ríkið vildi selja þessum samansafni lukkuriddara ráðandi hlut í Búnaðarbankanum. Lengi vel létu þeir eins og franski stórbankinn Société Général væri með þeim í kaupunum, en að lokum reyndist stóri, erlendi bankinn vera lítill, þýskur einkabanki sem enginn þekkti til. Og sá banki bara ómerkilegur leppur Ólafs Ólafssonar.

Svo vel þótti Ólafi Ólafssyni og mönnum hans til takast með blekkingarnar, að þeir voru reiðubúnir að endurtaka leikinn rúmum 5 árum síðar, haustið 2008, og þá með riddara á arabískum hesti, sem kom til bjargar á ögurstundu. Um þær æfingar hefur Hæstiréttur haft miður falleg orð:

  •  „ . . . þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi“

  • „ . . . beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild“

Þessi orð er allt eins hægt að nota um fléttu Ólafs Ólafssonar og „the usual suspects“ við kaupin á Búnaðarbankanum.

Ég hef alltaf verið hlynntur ítarlegri rannsókn á einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans 2002 og 2003 og ítreka það nú. Það er löngu tímabært að sú saga verði öll sögð, svo þeir beri skömmina sem eiga hana og aðrir fái uppreist æru. Og tímabært að stjórnmálamenn standi við yfirlýsingar sínar um gagnsæi. Ég er reiðubúinn að mæta fyrir hvaða nefnd sem er og fara ítarlega yfir einkavæðingu Landsbankans.


Fréttir

Örsmá króna, ábyrgðarleysi og brask - 8.10.2018 Fréttir

Ekki hefur farið framhjá nokkrum manni að 10 ár eru liðin frá hruninu. Áratugur ætti að vera nógu langur tími til að menn nái skýrri sýn á atburði, en því miður eru sárin það djúp að fólk er enn að deila um orsakir og hverjir séu helstu sökudólgar og verða eflaust að því minnst 10 ár til viðbótar.

Meira

Blekkingum beitt gegn þjóðinni - 5.10.2018 Fréttir

Ríkisstjórn Íslands átti möguleika á að bjarga einum bankanna haustið 2008, með því að fara að hugmyndum breska fjármálaeftirlitsins um að koma Icesave innlánsreikningum Landsbankans hið snarasta undir breska lögsögu. Til þess að svo yrði þurfti Landsbankinn 200 milljón punda fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands. En forsætisráðherra var blekktur til að samþykkja miklu hærra lán til Kaupþings. Allur gjaldeyrisforðinn rann þar á einu bretti í vafasamar björgunaraðgerðir Kaupþingsmanna, þar sem helsta markmiðið var að tryggja stjórnendum bankans, mönnum sem höfðu stýrt skráðu félagi í örfá ár, milljarða í eigin vasa.

Meira

Stoltur af CCP - 12.9.2018 Fréttir

Tilkynnt var um kaup Pearl Abyss á öllu hlutafé í CCP fyrir helgina. Novator hefur verið stærsti eigandi leikjaframleiðandans frá 2005, eða í 13 ár. Allan þann tíma hefur hugmyndaauðgi og kraftur einkennt starf CCP, allt frá því að nokkrir tugir starfsmanna unnu að þróun fyrstu leikjanna og þar til nú, að þetta stórfyrirtæki sinnir hundruðum þúsunda viðskiptavina um allan heim. Ég er sannfærður um að CCP mun halda áfram á sömu braut í eigu suður-kóreska fyrirtækisins Pearl Abyss og er stoltur af því magnaða fyrirtæki, sem nú eignast nýja bakhjarla.

Meira


RSS fréttastraumur

Allt efni á vefnum www.btb.is er unnið af Björgólfi Thor Björgólfssyni eða fyrir hann. Hann ber ábyrgð á efni vefjarins og er jafnframt handhafi höfundarréttar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica