Til þeirra er málið varðar
Fréttir

Brotið gegn réttarríki til að hindra uppbyggingu atvinnulífs

22.12.2009 Fréttir

Umræður síðustu daga um að ekki komi til greina að ríkið semji við Verne Holding vegna uppbyggingu gagnavers vegna þess að ég er hluthafi í félaginu, og einn upphafsmanna verkefnisins,sýnir að til eru stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar sem hika ekki við að brjóta gegn grunnreglum réttaríkisins til að hindra uppbyggingu nýrra atvinnugreina.

Fáeinum dögum fyrir fjórða sunnudag í aðventu spratt fram umræða í íslenskum fjölmiðlum um frumvarp iðnaðarráðherra um ívilnandi aðgerðir í þágu gagnavers á Miðnesheiði sem Verne Holding hafði hafist handa við smíði á fyrir um ári. Kastljós Ríkisútvarpsins bar fram spurningar sem fram höfðu komið á bloggsíðum internetsins hvort eðlilegt væri að hið opinbera gerði slíka samninga við félag sem ég ætti um 40% hlut í. Í framhaldinu var málið tekið upp í fréttum Ríkisútvarpsins og í umræðuþáttum rása 1 og 2. Þá var einnig um málið fjallað á Bylgjunni og síðar í prentmiðlum. Forsendur umfjöllunar var sú að ég bæri ábyrgð á hruni íslenska fjármálakerfisins og hefði til einhverjar þeirrar sektar unnið að hið opinbera ætti ekki eða mætti ekki gera samkomulag við fyrirtæki sem ég tengdist. Enginn fjölmiðill fjallaði um hvernig ábyrgð mín væri til komin eða hverjar af mínum athöfnum leiddu til brota eða sekta sem kæmu í veg fyrir að opinberir aðilar gætu átt í viðskiptum við fyrirtæki sem ég tengdist. Þá virtust fáir í fyrstu telja rétt að fresta umræðum af þessu tagi þar til skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lægi fyrir í febrúar 2010.

Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla stukku til sjálfskipaðir verndarar hins nýja Íslands. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, þjófkenndi mig og sagðist vita hverjir bæru ábyrgðina á hruninu og að ekki þyrfti að bíða eftir réttarkerfinu.  Væntanlega telur þingmaðurinn þá einnig ástæðulaust að bíða niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar sem Alþingi skipaði. Dómstóll götunnar dugar þingmanninum sem samkvæmt nýjustu skoðanakönnun um fylgi flokka nýtur flokkur hans stuðnings 1,2 % kjósenda. Forseti Alþýðusambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, telur ýmislegt skipta meira máli en sköpun nýrra atvinnutækifæra í greinum utan sjávarútvegs og álbræðslu því hann álítur að hið opinbera eigi að viðhafa einhverja þá reglu í samskiptum við atvinnulífið að semja ekki við þá sem voru mest áberandi í aðdraganda hrunsins.

Það þurfti formann Vinstri-grænna, Steingrím J. Sigfússon, til að minna á að ábyrgð mín á hruninu lægi ekki fyrir og þá hafði komið fram í umræðuþáttum ljósvakans að ég hefði aldrei setið í bankaráði Landsbankans og erfitt að tengja viðskipti mín fallli viðskiptabankanna. Það helsta sem ég hafði mér til sakar unnið virtist vera að hafa ásamt félögum mínum í Samson tekið lán í Búnaðarbankanum, fyrir greiðslu 35% hlutar í Landsbankanum árið 2003, þegar íslenska ríkinu voru greiddir nærri 12 milljarðar króna. Þá hafði einnig komið fram það sjónarmið að menn væru saklausir þar til sekt væri sönnuð.

Í framhaldinu kom fram í fréttum að aðrir aðilar sem væru að skoða möguleika á uppbyggingu gagnavera biðu eftir afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu þar sem þeir myndu njóta sömu ívilnana og myndi samþykkt frumvarpsins flýta mjög öllum ákvörðunum varðandi slíku uppbyggingu. Þá bentu menn á borð við Gísla Frey Valdórsson, blaðamann á Viðskiptablaðinu, að seint tækist Íslendingum að vinna sig út úr erfiðleikunum ef þingmenn ætluðu að festast í umræðu af þessu tagi.

Þessi umræða sýnir ljóslega að á fjölmiðlum og í stjórnmálum finnast aðilar sem spyrja ekki um grunnreglur réttarríkis þegar kemur að umfjöllun um hrunið og gera þeir kröfu um að samskipti hins opinbera við fjárfesta og atvinnulíf lúti úrskurði skjálfskipaðs dómstóls götunnar sem enginn veit hver er og enga ábyrgð ber. Þá er ljóst að ýmsir stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar eru reiðubúnir að fara gegn leikreglum réttarríkisins í þeim tilgangi að tefja uppbyggingu nýrra atvinnugreina á Íslandi.RSS fréttastraumur

Allt efni á vefnum www.btb.is er unnið af Björgólfi Thor Björgólfssyni eða fyrir hann. Hann ber ábyrgð á efni vefjarins og er jafnframt handhafi höfundarréttar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica