Til þeirra er málið varðar
Fréttir

Ólafur hittir fyrir sig og sína

27.10.2010 Fréttir

Stundum hitta menn sjálfa sig og vini sína fyrir þegar þeir ætla að skjóta föstum skotum að öðrum. Það gerir Óiafur Arnarson, innsti koppur í Kaupþingsbúrinu, í pistli á Pressunni. Upphrópanir hans um stöðutöku gegn krónunni gera ekkert annað en að leiða hugann að því hverjir það voru í raun, sem töldu sér sæmandi að ráðast af fullri hörku gegn krónunni. Það er rétt að rifja það upp, fyrir Ólafi og öðrum þeim sem gleyma eftir hentugleikum. Fyrr á þessu áru voru sagðar fréttir af því að hann væri á launum frá hagsmunaaðilum þegar hann gaf sig út fyrir að vera sjálfstæður hagfræðingur og pistlahöfundur.

Rannsóknarnefnd alþingis kannaði gjaldeyrisviðskipti í aðdraganda hrunsins í þaula og fjallar um þau í 4. bindi, 13. kafla. Þar kemur fram að Kaupþing, helstu eigendur og stærstu viðskiptavinir bankans bera ábyrgð á hruni krónunnar. Í niðurstöðum sínum kemst rannsóknarnefndin svo að orði:

„Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.           

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.“

Hagfræðingnum Ólafi Arnarsyni til glöggvunar má svo einnig rifja upp ummæli Sturlu Pálssonar, forstöðumanns alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands, í yfirheyrslum fyrir rannsóknarnefndinni. Seðlabankinn hafði óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það kannaði hegðun Kaupþings í gjaldeyrisviðskiptum, þ.e. mjög mikil kaup á gjaldeyri.  Sturla dró ekkert undan í lýsingununum:

 „Þeir ryksuguðu gjaldeyrismarkaðinn og svo þegar þeir eru búnir að því þá hætta þeir að kvóta inn á swap-markaðinn sem gerir það að verkum að í mars 2008 bara hrynur krónan og við stóðum náttúrulega algjörlega ráðþrota í málinu því að þegar þetta gerist fara CDS-in á bankann upp og það eru komnar alls konar áhyggjur af þeim þannig að erlendir aðilar sem eiga krónur þeir bara fara í panik að selja.“

Aðgerðir Kaupþings urðu sem sagt til þess að „í mars 2008 bara hrynur krónan“.

Ólafur Arnarsonar hrópar hátt um „árás á Ísland“ þegar fjölmiðlar dylgja um stöðu fyrirtækja á mínum vegum gegn krónunni, þótt enginn hafi getað bent á dæmi um slíka stöðu, enda finnast þau ekki. Hætt er við að Ólafur lendi í vandræðum með nógu sterk orð þegar hann fer loksins að tjá sig um hina raunverulegu, sönnuðu stöðutöku, sem varð til þess að „í mars 2008 bara hrynur krónan“.RSS fréttastraumur

Allt efni á vefnum www.btb.is er unnið af Björgólfi Thor Björgólfssyni eða fyrir hann. Hann ber ábyrgð á efni vefjarins og er jafnframt handhafi höfundarréttar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica