Til þeirra er málið varðar
Fréttir

Eignasafn Landsbankans var best

11.11.2010 Fréttir

Í nýútkominni bók Björgvins G. Sigurðssonar, Stormurinn, er því haldið fram að eignasafn Kaupþings hafi haustið 2008 verið best íslenskra banka og eru sérfræðingar JP Morgan fjármálafyrirtækisins bandaríska sagðir hafa lagt það til grundvallar þeim ráðum til stjórnvalda að réttast væri að bjarga Kaupþingi fremur en Landsbankanum. Hafi sérfræðingarnir erlendu haldið þessu fram hafa þeir ekki farið rétt með staðreyndir. Eins og fram kemur í kynningu rannsóknarnefndar Alþingis var eignasafn Landsbankans best og niðurfærsluþörf bankans í nóvember 2008 var minnst íslenskrar banka eða 54% en hún var mest hjá Kaupþingi, 69%.

Eins og sjá má á glæru nr. 30 í kynningu rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins var niðurfærsluþörf eigna Kaupþings 69%, Glitnis 65% og minnst hjá Landsbankanum eða 54%.

Nidurfaerslu---kynning-RNA

Þá hefur því einnig verið haldið fram að eignir Landsbankans hafi verið lélegri en hinna bankanna vegna þess að Glitnir og Kaupþing áttu fyrir forgangskröfum en Landsbankinn ekki.  Þetta er ályktun byggð á röngum forsendum. Ástæðan fyrir því að eignir Landsbankans duga ekki fyrir forgangskröfum er að kröfur í forgangi eru hlutfallslega miklu hærri í Landsbankanum en í hinum bönkunum vegna Icesave-reikninganna. Frá þessu greindi fyrrum bankastjóri Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson í yfirlýsingu sem birt var í Morgunblaðinu þann 10. febrúar á þessu ári. Frá þessari yfirlýsingu Halldórs J. er greint frá hér á www.btb.is - sjá hér og hér.

Nú eru ekki birt í bók Björgvins G. Sigurðssonar nein gögn frá þeim fundi þar sem sérfræðingar JP Morgan eru sagðir hafa rökstutt stuðning við Kaupþing fremur en Landsbankann og því erfitt að meta ráðgjöf þeirra. En í ljósi ofangreindra staðreynda virðast þeir ekki hafa haft réttar upplýsingar við hendina þegar þeir voru að ráðleggja ráðherrum nóttina örlagaríku  þann 6. október 2008. Það eiga því enn eftir að koma fram gögn og upplýsingar um efnislegar ástæður þess að ríkisvaldið ákvað að synja Landsbankanum um lán til að koma Icesave-reikningum í flýti úr íslenskri lögsögu en í staðinn lána Kaupþing 500 milljónir evra.RSS fréttastraumur

Allt efni á vefnum www.btb.is er unnið af Björgólfi Thor Björgólfssyni eða fyrir hann. Hann ber ábyrgð á efni vefjarins og er jafnframt handhafi höfundarréttar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica