Til þeirra er málið varðar
Fréttir

Stoltur af CCP

12.9.2018 Fréttir

Tilkynnt var um kaup Pearl Abyss á öllu hlutafé í CCP fyrir helgina. Novator hefur verið stærsti eigandi leikjaframleiðandans frá 2005, eða í 13 ár. Allan þann tíma hefur hugmyndaauðgi og kraftur einkennt starf CCP, allt frá því að nokkrir tugir starfsmanna unnu að þróun fyrstu leikjanna og þar til nú, að þetta stórfyrirtæki sinnir hundruðum þúsunda viðskiptavina um allan heim. Ég er sannfærður um að CCP mun halda áfram á sömu braut í eigu suður-kóreska fyrirtækisins Pearl Abyss og er stoltur af því magnaða fyrirtæki, sem nú eignast nýja bakhjarla.

Salan á CCP varð fréttaefni um allan heim. Á Íslandi fjölluðu allir fréttamiðlar um söluna. Mbl.is reið á vaðið á fimmtudagsmorgun og í kjölfarið Vísir, Fréttablaðið, Kjarninn, DV, RÚV, Viðskiptablaðið, útvarps- og sjónvarpsstöðvar létu ekki sitt eftir liggja og í framhaldinu birtust einnig fréttir víða um hagnað fjárfesta af sölunni.

Trú á íslenskt atvinnulíf

Birgir Már Ragnarsson, stjórnarformaður CCP og félagi minn í Novator Partners, dró fram áhugaverðar staðreyndir í samtali við mbl.is. Þar sagði hann að Novator fagnaði því sér­stak­lega að hafa fengið er­lenda fjár­festa enn á ný til að fjár­festa í ís­lensku hug­viti. „Árið 2015 lagði einn stærsti fram­taks­sjóður heims, New Enterprise Associa­tes, fjóra millj­arða króna í nýtt hluta­fé í CCP, en áður hafði Gener­al Ca­ta­lyst Partners komið þar inn. Árið 2017 var gengið frá kaup­um PT Capital á meiri­hluta í fjar­skipta­fyr­ir­tæk­inu Nova, fyr­ir um átta millj­arða króna. Síðar það sama ár keypti banda­ríska fé­lagið NetApp ís­lenska hug­búnaðarfé­lagið GreenQloud á 5,3 millj­arða króna og nú hef­ur Pe­arl Abyss keypt CCP á um 45 millj­arða króna. Sú trú, sem er­lend­ir fjár­fest­ar sýna ís­lensku at­vinnu­lífi með þess­um fjár­fest­ing­um, er mik­il­væg ís­lensku sam­fé­lagi og Novator er stolt af að eiga þar stór­an hlut að máli.”

Af þessari upptalningu er ljóst, að þar sem Novator fjárfestir eru yfirgnæfandi líkur á að erlendir fjárfestar láti einnig til sín taka.

Hver myndi ekki vilja kaupa þetta félag?

Það tæki langan tíma og ógnarlangan pistil að rekja allar þær fréttir, sem erlendir miðlar víða um heim sögðu af sölu CCP. Sem dæmi má nefna að bandaríska tæknisíðan VentureBeats fjallaði ítarlega um söluna og birti viðtal við Hilmar Veigar Pétursson forstjóra og allar helstu fréttasíður um tölvuleiki gerðu slíkt hið sama.

Variety, eitt helsta tímarit afþreyingariðnaðarins, ritaði einnig um söluna á vefsíðu sinni, rifjaði þar stuttlega upp rúmlega 20 ára sögu CCP og afrek til þessa og spurði: „Hver myndi ekki vilja kaupa þetta félag?“Fréttir

Örsmá króna, ábyrgðarleysi og brask - 8.10.2018 Fréttir

Ekki hefur farið framhjá nokkrum manni að 10 ár eru liðin frá hruninu. Áratugur ætti að vera nógu langur tími til að menn nái skýrri sýn á atburði, en því miður eru sárin það djúp að fólk er enn að deila um orsakir og hverjir séu helstu sökudólgar og verða eflaust að því minnst 10 ár til viðbótar.

Meira

Blekkingum beitt gegn þjóðinni - 5.10.2018 Fréttir

Ríkisstjórn Íslands átti möguleika á að bjarga einum bankanna haustið 2008, með því að fara að hugmyndum breska fjármálaeftirlitsins um að koma Icesave innlánsreikningum Landsbankans hið snarasta undir breska lögsögu. Til þess að svo yrði þurfti Landsbankinn 200 milljón punda fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands. En forsætisráðherra var blekktur til að samþykkja miklu hærra lán til Kaupþings. Allur gjaldeyrisforðinn rann þar á einu bretti í vafasamar björgunaraðgerðir Kaupþingsmanna, þar sem helsta markmiðið var að tryggja stjórnendum bankans, mönnum sem höfðu stýrt skráðu félagi í örfá ár, milljarða í eigin vasa.

Meira


RSS fréttastraumur

Allt efni á vefnum www.btb.is er unnið af Björgólfi Thor Björgólfssyni eða fyrir hann. Hann ber ábyrgð á efni vefjarins og er jafnframt handhafi höfundarréttar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica